Bjarni Thor Kristinsson er einn þeirra íslensku óperusöngvara sem hefur náð hvað lengst á erlendri grundu. Hlutverkalisti hans spannar allt frá kómískum persónum í óperum Mozarts til dramatískra varmenna í óperum Wagners.
Tvö hlutverk hafa fylgt Bjarna frá upphafi. Annars vegar er það Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir Mozart og hins vegar Ochs barón í Rósariddaranum eftir Richard Strauss. Bjarni hefur sungið baróninn út um allan heim; í Barcelóna, Stokkhólmi, Ríkisóperunni Berlín, Dresden, Düsseldorf, Köln, Frankfurt, Peking og Tokíó. Fyrsta uppfærslan sem Bjarni söng hlutverk Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu eftir Mozart var í Ríkisóperunni í Berlín árið 1999 og síðan þá eru sýningarnar komnar á annað hundrað í fjölmörgum uppfærslum, m.a. í Düsseldorf, Köln, Lissabon, Parlermo, Napólí, Þjóðaróperunni í Vín og svo í Íslensku óperunni en fyrir túlkun sína fékk hann Grímuna sem söngvari ársins árið 2007.
Á sínu öðru ári sem atvinnnusöngvari söng Bjarni hlutverk gullsmiðsins Pogner í Meistarasöngvurunum. Þetta var hans fyrsta hlutverk í óperu eftir Richard Wagner en síðan þá er hann búinn að syngja flest bassahlutverkin í verkum tónskáldsins: Daland í Hollendinginum fljúgandi, Gurnemanz og Titurel í Parsifal, Hinrik konung í Lohengrin, Marke konung í Tristan og Isold auk þess hafa tekið þátt í mörgum uppfærslum af Hringnum í hlutverkum Óðins, Fáfnirs, Hundings og Högna.
Samhliða hinum dramatísku Wagnerhlutverkum hefur Bjarni tekist á við mörg verkefni í hinu kómíska fagi, bæði í þýskum „Singspiel“ óperum og ítölskum försum. Hann hefur m.a. sungið bæði Bartolo og Basilio í Rakaranum frá Sevilla, Dulcamara í Ástardrykknum, van Bett í Zar und Zimmermann, John Falstaff í Kátu konunum frá Windsor og Alfreð Doolittle í My fair Lady.
Á undanförnum árum hefur Bjarni verið fastagetur við óperuhúsið í Köln og m.a. sungið nokkur hlutverk úr þýskum óperum 20. aldar; lækninn í Wozzeck eftir Berg, Sartorius í Solaris eftir Glannert, Nardi í Die Gezeichneten eftir Schrecker, Tremoullie í Jóhönnu af Örk og Prometeus í Die Vögel, bæði eftir Braunfels og nú síðast (vorið 2022) hlutverk Volands í óperunni Meistarinn og Margarita eftir York Höller en fyrir frammistöðu sína þar fékk Bjarni mjög góðar viðtökur, bæði hjá áhorfendum og gagnrýnendum.
Á þessum aldarfjórðungi sem liðinn er síðan Bjarni hóf sinn ferill eru hlutverkin sem hann hefur sungið um 80 talsins; sýningarnar komnar á 9unda hundraðið og óperuhúsin þar sem hann hefur komið fram eru um 60. Fyrstu skrefin sem atvinnusöngvari tók hann á sviði Íslensku óperunnar í Gamla bíói. Að námi loknu var hann fastráðinn við Þjóðaróperuna í Vínarborg en eftir 3 ár sneri hann sér alfarið að lausamennsku. Við tóku gestasamningar út um allan heim; aðallega í Evrópu en einnig í Ameríku, Asíu og Ástralíu.
Nám í söng stundaði Bjarni upphaflega við Tónlistarskólann í Njarðvik, þá Söngskóla Sigursveins og loks við Söngskólann í Reykjavík. Hans aðalkennari var Ragnheiður Guðmundsdóttir auk þess sem Garðar Cortes kenndi honum síðustu önnina. Árið 1994 hélt hann til Vínarborgar og stundaði nám í óperusöng hjá Helene Carusso og Kurt Malm við Tónlistarháskólann þar í borg.
Á undanförnum árum hefur Bjarni einnig snúið sér að kennslu, leikstjórn, þýðingu og leikgerð. Fyrstu verkefni hans sem leikstjóri voru King Arthur eftir Purcell og Orfeo eftir Monteverdi (nemendasýningar) og síðan Viðburðastjórinn (Schauspieldirektor) eftir Mozart í Iðnó, Þrymskvíða eftir Jón Ásgeirsson og Fidelio eftir Beethoven í Hörpu, Mærþöll eftir Þórunni Guðmundsdóttur í Gamla bíói og nú síðast Cosi van tutte eftir Mozart í Iðnó/Gamla bíó.